Nú er kominn sá tími að okkar aðal „skattavertíð“ fer af stað, hefur stundum í góðu tómi verið nefnt „skrattavertíð“ af blessaðri móður minni. Held að það sé nú aðallega vegna þess að hún hefur ekki jafn gaman af skattamálum og ég.
Eins og undanfarin ár þá hefst vinnan með því að senda inn launa, verktaka og hlutafjármiða til yfirvalda. Lokaskiladegi á þeirri vinnu var reyndar flýtt um viku þetta árið en vinnan gekk vel og allt komið til skila sem hægt var að senda. Verktakamiðar fyrir rekstraraðila eru þó seinni á ferð eins og alltaf en þá er ekki hægt að senda fyrr en búið er að bóka allt árið.
Hins vegar hefur RSK boðað stóra breytingu á vinnuumhverfi okkar þetta árið. Sl ár hefur frestur fagaðila verið fram í maí, í fyrra var síðasti skiladagur fyrir einstaklinga og einstaklinga í rekstri 7. maí. Eins og undanfarin ár var fresturinn lengdur um viku rétt áður en auglýsti fresturinn rann út. Í fyrra eins og önnur ár voru unnir hér ansi langir dagar til að við næðum að skila öllu af okkur. Í ár hefur RSK boðað að síðasti skiladagur verði 29. mars!
Sem sagt 39 daga stytting á frestinum. Reyndar ætla þeir sér að opna fyrir skil viku fyrr þannig að raun stytting er 33 dagar. Á frestlista okkar eru í dag uþb 400 kennitölur, fyrir utan lögaðila sem við störfum fyrir. Þó er enn í dag ekki komin formlega auglýst dagsetning en við verðum að reikna með því að þessi verði látin gilda.
Það er því heldur erfið staða framundan hjá okkur og því miður svo að við sjáum ekki framá að geta lofað því að klára alla á réttum tíma. Við munum þó auðvitað gera okkar allra besta og hér eftir sem hingað til tilbúin í að leggja ýmislegt á okkur til að mæta þörfum okkar viðskiptavina. Til að auðvelda okkur vinnuna og auka líkur á því að framtalsgerð ljúki á tilsettum tíma þá viljum við hvetja alla okkar viðskiptavini til að skila til okkar öllum gögnum sem allra fyrst. Oft fer mikill tími af okkar vinnu í að leita eftir og bíða eftir gögnum sem hefur vantað. Því betri skil á gögnum, því minni tími fer í það hjá okkur að ýta á eftir gagnaskilum og meiri tími sem við höfum til að vinna að framtalsskilum.
Við erum að sjálfsögðu komin af stað í undirbúningi fyrir framtalsgerð og erum hér alla daga við vinnu, oft langa daga. Það kemur jú auðvitað fyrir að við vinnum líka utan skrifstofu en í 99% tilfella er alltaf hægt að ná í eitthvert okkar ef skila þarf gögnum utan formlegs opnunartíma. Auglýstur opnunartími er 9-15 alla virka daga.
Til að taka af allan vafa þá á þessi skilafrestur EKKI við um lögaðila, aðeins einstaklinga og einstaklinga í rekstri.