Lögum samkvæmt ákveður og auglýsir fjármála- og efnahagsráðuneytið árlega fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns og innheimtuhlutfall í staðgreiðslu sem er samanlagt hlutfall tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og meðalhlutfall útsvars eins og það er samkvæmt ákvörðunum sveitarstjórna, sbr. lög nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
Tekjuskattshlutfall á árinu 2015 verður 22,86% af tekjuskattsstofni að 3.709.680 kr., 25,3% af tekjuskattsstofni frá 3.709.681 kr. að 10.036.847 kr. og 31,8% af tekjuskattsstofni frá 10.036.848 kr. Meðalútsvar á árinu 2015 samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarstjórna verður 14,44%.
Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu á árinu 2015 verður því eftirfarandi:
37,30% af tekjuskattsstofni að 3.709.680 kr., ( mánaðarlaun að 309.140 kr )
39,74% af tekjuskattsstofni frá 3.709.681 kr. að 10.036.847 kr. og ( mánaðarlaun frá 309.141 kr að 836.404 kr )
46,24% af tekjuskattsstofni frá 10.036.848 kr. (mánaðarlaun yfir 836.405 kr )
Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 10.036.847 kr. skal það sem umfram er skattlagt með 25,3% skatthlutfalli allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 10.036.847 kr., þó reiknast 25,3% skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 3.163.584 kr. við þessar aðstæður.
Samkvæmt A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal persónuafsláttur hvers einstaklings á árinu 2015 vera 610.825 krónur, eða 50.902 krónur að meðaltali á mánuði.