Þann 18. desember sl voru samþykktar lög sem breytingar á lögum nr 50/1988 um virðisaukaskatt. Lögin hafa skv vef Alþingis ekki hlotið númer né hafa þau verið gefin út á vefnum en samkvæmt frumvarpinu þá innihalda breytingarnar meðal annars eftirfarandi atriði sem við viljum vekja athygli á:
· 3. tölul. 4. gr. laganna orðast svo: Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 1.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili frá því að starfsemi hefst.
· Á a lið 24. gr laganna verður eftirfarandi breyting: Í stað „1.400.000 kr.“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: 3.000.000 kr.
Umræddar breytingar þýða í raun að eftir gildistöku laganna er einstaklingum heimilt að selja skattskylda vöru og/eða þjónustu fyrir allt að 1.000.000 kr á ári án þess að sækja um vsk númer. Að sjálfsögðu eru tekjurnar þó tekjuskattskyldar.
Seinni breytingin þýðir (á „mannamáli“ eins og sumir viðskiptavina okkar orða það) að ársskilamörkin hækka úr 1.400.000kr veltu á ári í 3.000.000kr veltu.
Einnig eru gerðar athyglisverðar breytingar á 27. gr laganna. Það er sú grein laganna sem segir að heimilt sé að bæta við álagi á þann virðisaukaskatt sem ekki er greiddur á réttum tíma.
Á eftir 27. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 27. gr. A og 27. gr. B, svohljóðandi:
a. (27. gr. A.)
Hafi skattaðili sætt áætlun virðisaukaskatts skv. 25. eða 26. gr. samfellt í tvö ár eða lengur er ríkisskattstjóra heimilt að fella hann af virðisaukaskattsskrá.
Skattaðili sem hefur verið felldur af virðisaukaskattsskrá skv. 1. mgr. getur ekki skráð sig aftur nema hann hafi gert fullnægjandi skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti. Í stað fullnægjandi skila á virðisaukaskatti getur ríkisskattstjóri heimilað skattaðila að leggja fram tryggingu í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka fyrir endurákvörðuðum virðisaukaskatti skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar, að viðbættu álagi, vöxtum og öðrum innheimtukostnaði.
Skattaðili sem hefur verið skráður að nýju á virðisaukaskattsskrá skv. 2. mgr. skal nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil í að minnsta kosti tvö ár frá og með því tímabili sem skráning á sér stað að nýju og skal gjalddagi vera 15 dögum eftir að uppgjörstímabili lýkur. Hafi skattaðili gert fullnægjandi skil á þessu tímabili skal hann að því loknu standa skil á virðisaukaskatti samkvæmt almennum reglum 24. gr.
Ákvæði 3. mgr. gilda einnig um nýskráningu á virðisaukaskattsskrá skv. 5. gr. og endurskráningu skv. 2. mgr. þessarar greinar ef skattaðili sjálfur, eigandi, framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður, sé um félag að ræða, hefur orðið gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir skráningu á virðisaukaskattsskrá.
Fjármálaráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd þessarar greinar.
b. (27. gr. B.)
Berist virðisaukaskattsskýrsla eftir að skattaðili hefur sætt áætlun skal ríkisskattstjóri leggja á hann gjald að fjárhæð 5.000 kr. fyrir hverja virðisaukaskattsskýrslu sem hefur ekki verið skilað á réttum tíma skv. 2. mgr. 24. gr.
Fella má niður gjald skv. 1. mgr. ef skattaðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og metur ríkisskattstjóri það í hverju tilviki hvað skuli telja gildar ástæður í þessu sambandi.
Innheimtumaður ríkissjóðs annast innheimtu gjaldsins sem rennur í ríkissjóð.
Fleiri breytingar voru gerðar á lögunum og munum við fjalla um það sérstaklega þegar að lögin hafa verið gefin út á vef Alþingis.